Tuesday, July 1, 2014

Dagar 41, 42, 43, 44 & 45 - 2.0 x 5

Jæja, verð að viðurkenna að ég sé ekki tilganginn með að búa til sérfærslur þegar ég endurvinn varaliti. Það er hreinlega ekki nógu mikið efni í bitastæða færslu, þar sem ég er búin að segja það helsta sem liggur mér á hjarta. Því ætla ég að hópa næstu fimm dögum í eina færslu í þeirri veiku von um að hún hafi eitthvað til brunns að bera og geti valdið einhverjum einhverskonar ánægju. (hæ mamma)

Dagur 41 - Gigolo
Þessu fína laugardagskvöldi var eytt á Café Rósenberg á KK tónleikum með hjartavinkonu. Gæti vel látið það ósagt en við lækkuðum meðalaldurinn í rýminu um ca. 35 ár. Sem okkur fannst frábært. Þetta var eitt besta kvöld sumarsins. Ég var í leðurbuxum.
Gigolo fékk að prýða varir mínar með stolti því, eins og ég hef fjallað um áður, hann er fullkominn.


við tókum engar selfies en það var kanína í bjórnum mínum

Dagur 42 - Dolce Vita
Þessir þunnudagar eru nú meira ruglið. Ég er líka orðin svo gömul (why god) að ég er hætt almennilegum svefni eftir djömm - heldur er ég sívaknandi með aumingjavæl. Þá var ég einnig dregin út fyrir allar aldir í verslunarleiðangur með móður minni, því ég átti að sjá ein um óðalið næstu þrjár vikurnar og kattardýrið sem á því býr og einhverju áttum við að lifa á. Leiðin lá í Bónus þar sem keyptir voru blómkálshausar og hinir ýmsu safar fyrir fjögurþúsund krónur.
Í stuttu máli hafði mér liðið betur (ég var eins og skítur) svo mér fannst ég þurfa að dæla einhversskonar næringu í þurrar varir mínar. Vandasamt verk þegar maður hefur sett sjálfum sér varalitaáskorun. Dolce Vita er eini varaliturinn sem ég virkilega trúi að næri varir mínar svolítið svo hann varð fyrir valinu þennan þunnudaginn. Hann er líka svo enkel og þægilegur. (ég er sko dani svo ég má sletta eins og ég vil, það er fínt að sletta á dönsku)


gestavarirnar tilheyra lilsys - hún er ekki þunn bara kewl

Dagur 43 - Lady Danger
Mikið elska ég þegar fólk getur nefnt varalitinn sem ég er með að hverju sinni. Það er fólk að mínu skapi. (you know who you are)
Af einhverjum ástæðum bregst aldrei að fólk hrósi mér þegar ég er með þennan á mér og svo fylgir alltaf: Lady Danger er það ekki? Og ég svara með blikki. (ef ég svara þér með blikki máttu vita að þú hefur öðlast stig, ef ekki þá svekk) Þetta kvöld var grillkvöld með nokkrum krökkum úr vinnunni sem leiddi til djamms sem leiddi til veikindavikunnar miklu.

Dagur 44 - Goddess of the Sea
17. júní var, sem fyrr, blautur. En þetta árið var hann extra blautur. Þrjár hjartavinkonur gerðu sér ferð í miðbæinn með þrjár regnhlífar að vopni og spurðu sig svo sjálfar hví þær fóru í þessa pílagrímsferð þegar á leiðarenda var komið. Þá var farið á veitingastað og keypt sér hamborgara. Eins og ég sagði í GotS færslunni er erfitt að líða ekki fabulous með þennan varalit á sér, verð þó að viðurkenna að hann er ögn minna fabulous á borgaranum sjálfum. Það er víst ekki dömulegt að klína varalitnum sínum á matinn sinn.
Mér var búið að vera illt í maganum allan daginn, en þar sem ég er þaulreyndur djammari gerði ég bara ráð fyrir að þetta var þynnkan að segja til sín sem svo oft áður. Þá kom kvöldið og þá lá ljóst fyrir að ég hafði nælt mér í þessa ágætu magapest sem herjað hafði á landið.


hehe totally bald lady

Dagur 45 - Praire
Nú spyrja eflaust margir af hverju ég notaði Prairie aftur þar sem ég fór miður fögrum orðum um hann í færslunni um hann. Ég hef engin svör, ég var eflaust með óráði. Segi það aftur: ótrúlega sætur litur en með ömurlegri formúlu sem gerir hann nánast ónothæfann. Hann toldi samt ekki lengi á vörunum - og ekki einungis af því að hann er í heldur lélegri kantinum... (búrumbúmm... ég var með gubbupest. get it?)
-n

1 comment: